*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 12. október 2020 16:39

Tryggingafélög með nærri helming veltu

Mesta veltan eða um 45% þeirrar 1,4 milljarða króna veltu sem var á hlutabréfamarkaði í dag var með bréf TM og VÍS.

Ritstjórn

Origo hækkaði mest og Arion banki lækkaði mest í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi, sem voru samtals fyrir um 1,4 milljarða króna í dag. Lækkaði úrvalsvísitalan um 0,46% í viðskiptunum, niður í 2.184,07 stig, en af 20 félögum í kauphöllinni hækkuðu og lækkuðu jafnmörg í virði, eða 8 í hvora átt.

Lækkun gengis bréfa Arion banka var eins og áður segir sú mesta í dag, eða um 2,09%, í 84 milljóna króna viðskiptum og fóru þau niður í 75 krónur hvert. Næst mest var lækkun á gengi bréfa Skeljugns, eða um 1,37%, niður í 7,94 krónur í 28 milljóna króna viðskiptum.

Þriðja mesta lækkunin var á bréfum Icelandair, eða um 1,04% og fóru þau niður í 0,95 krónur, 5 aurum undir útboðsgengið um miðjan síðasta mánuð, í litlum 5 milljóna króna viðskiptum.

Mest velta með bréf TM og VÍS

Mest hækkun var hins vegar á bréfum Origo, eða 1,58%, upp í 32,10 krónur, í 28 milljóna króna viðskiptum. Hækkun bréfa Sýnar var sú næst mesta, eða um 1,52%, upp í 30,10 krónur, í 56 milljóna króna viðskiptum.

Loks var hækkun bréfa Símans sú þriðja mesta, eða um 1,41%, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi, eða fyrir 220,8 milljónir króna og enduðu þau í 7,18 krónum.

Mesta veltan var hins vegar með bréf TM, eða fyrir 389,4 milljónir króna, og lækkuðu bréfin í þeim um 0,13%, niður í 38,50 krónur. Næst mesta veltan var loks með bréf VÍS, eða fyrir 243,4 milljónir króna, en bréfin hækkuðu um 0,46%, upp í 10,95 krónur.

Samanlögð velta með tryggingafélögin tvö nám 632,8 milljónum króna sem er um 45% allrar veltu á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar á Íslandi  í dag. Veltan á bréfum þriðja tryggingafélagsins, Sjóvá var þó mun minni eða fyrir 14 milljónir króna og hækkaði gengi bréfa félagsins um 0,48%, í 21 krónu hvert.

Veiking krónunnar heldur áfram

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum á markaði í dag, mest gagnvart japanska jeninu og breska pundinu, en minnst gagnvart evru og eins og gefur að skilja dönsku krónunni sem er bundin evrunni.

Þannig styrktist japanska jenið um 0,67% gagnvart íslensku krónunni, og fæst það nú á 1,3068 krónur, og breska pundið styrktist um 0,61% og fæst nú á 179,81 krónu.

Loks styrktist Bandaríkjadalur um 0,30% gagnvart krónunni, og fæst hann nú á 137,61 krónu.

Styrking dönsku krónunnar nam 0,13% og fæst hún nú á 21,829 krónur, meðan styrking evrunnar nam 0,12%, og fór kaupgengi hennar í 162,46 krónur.

Stikkorð: Úrvalsvísitalan Sjóvá TM Arion VÍS kauphöll Origo Nasdaq á Íslandi