Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gert athugasemd við skort á sundurliðun kostnaðar við tryggingar ökutækja og eigna hjá tryggingafélögunum Sjóvá-Almennar, TM, VÍS og Verði.

Var athugasemdin gerð eftir athugun á því hvort sundurliðun kostnaðar og afslátta vátrygginga við tilboðsgerð til viðskiptavina væri í samræmi við reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga.

Samkvæmt þeim skulu viðeigandi upplýsingar um vöru og þjónustu, þar á meðal allan kostnað, veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram sem og meðan á viðskiptasambandi aðilanna stendur.

Skoðað FME því hvernig tilboðsgerð fór fram hjá félögunum og hvaða forsendur væru lagðar til grundvallar henni, og hvernig samsetning tilboðanna til viðskiptavinanna væri háttað, með tilliti til sundurliðunar trygginga, afslátta og svo framvegis.

Í athugasemdum til Sjóvá-Almennar segir stofnunin að ekki hafi verið sundurliðun kostnaðar við ökutækjatryggingu niður á ábyrgðartryggingu ökutækis, slysatryggingu ökumanns og eigenda og loks bílrúðutryggingu.

Svipað var upp á teningnum hjá TM, þó bílrúðutryggingin var ekki nefnd í athugasemdinni, sem og hjá VÍS en þar vantaði einnig sundurliðun afslátta niður á fyrrnefndar tryggingar, bílrúðutryggingu og kaskótryggingu.

Loks var gerð athugasemd við bæði ökutækja- og eignatryggingar hjá Verði, sérstaklega að lokaverð væri gefið upp sem „Samtals með afslætti“ án þess að afslættirnir væru sundurliðaðir niður á einstakar tryggingar.