Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 4,5 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Af þeim sex félögum sem hækkuðu í dag voru tryggingafélögin VÍS og Sjóvá ásamt Kviku, sem á dótturfélagið TM tryggingar. Kvika tilkynnti rétt eftir miðnætti að TM hafi selt allan 11,6% eignarhlut sinn í Stoðum.

VÍS hefur hefur nú hækkað um 16% og Sjóvá um tæp 23% frá síðustu áramótum. Gengi Kviku banka hefur hækkað um tæp 9% frá því að viðskipti með hlutabréf hins sameinaða félags, Kviku, TM og Lykils, var hringt inn þann 6. apríl síðastliðinn.

Smásölufyrirtækin Hagar og Festi lækkuðu bæði í viðskiptum dagsins en gengi beggja félaga náði methæðum í gær. Festi lækkaði mest allra félaga um 1,2% og Hagar um 0,9%. Síðarnefnda félagið tilkynnti í dag um kaup á helmingshlut í Djús ehf., sem á og rekur veitingastaði undir merkjum Lemon.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,4% í 1,2 milljarða króna veltu. Gengi Arion hefur þó hækkað um 44,7% í ár, mest allra félaga Kauphallarinnar. Fasteignafélögin þrjú, Reitir, Reginn og Eik lækkuðu öll um rúmlega 0,8% í dag.