*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 10. september 2019 16:16

Tryggingafélögin hækkuðu í virði

Á sama tíma og flest félög lækkuðu í kauphöllinni juku tryggingafélögn þrjú við virði sitt. Arion lækkar í Svíþjóð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 1,05%, en hélt sér þó rétt yfir tvö þúsund stiga múrinn, eða í 2.004,16 stigum. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 1,6 milljarði króna, en mest velta var með bréf Símans, sem lækkuðu um 0,21%, niður í 4,66 krónur hvert bréf, í 205 milljón króna viðskiptum.

Mest hækun var á gengi bréfa Heimavalla, eða um 0,84%, en þó einungis í hálfrar milljóna króna viðskiptum, en bréfin fást nú á 1,20 krónur. Eins og fram kom á sínum tíma var vegið meðalgengi bréfa félagsins í útboðinu við skráningu 1,39 krónur. Óskað hefur verið eftir afskráningu félagsins en eftir að kauphöllin synjaði heimild um það hefur félagið hafið endurkaupaáætlun eigin bréfa.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa TM; eða um 0,79%, upp í 31,80 krónur, í 94 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa VÍS, sem hækkuðu um 0,43%, í 165 milljóna króna viðskiptum. Fór gengið í 11,70 krónur.

Þriðja tryggingafélagið var jafnframt fjórða, og síðasta allra þeirra félaga sem hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, en gengið bréfa Sjóva hækkaði um 0,30%, upp í 16,75 krónur í 72 milljóna króna viðskiptum.

Tvö félög stóðu í stað, önnur lækkuðu

Engin breyting var á gengi tveggja félaga, Eimskipafélagsins og Origo, en mest lækkun var á gengi bréfa fasteignafélagsins Reginn, eða um 1,88% í 148 milljóna króna viðskiptum, niður í 20,85 krónur. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 1,86%, niður í 6,85 krónur, í 47 milljóna króna viðskiptum.

Loks má nefna að í sænsku kauphöllinni lækkaði gengi bréfa Arion banka um 2,11%, niður í 6,04 krónur sænskar, en á sama tíma lækkaði gengi bréfa bankans í íslensku kauphöllinni um 1,13% í 169 milljóna króna viðskiptum, og fóru þau niður í 79,00 krónur.

Íslenska krónan styrktist

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum. Mest lækkaði gengi sænsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku eða um 0,59%, niður í 12,917 íslenskar krónur.

Lækkun evrunnar nam 0,29%, niður í 138,24 krónu kaupgengi, en Bandaríkjadalurinn lækkaði um 0,13%, niður í 125,16 krónur. Breska pundið lækkaði svo um 0,14% í 154,63 króna kaupgengi.

Stikkorð: Arion banki Sjóvá TM Nasdaq Eimskipafélagið VÍS Kauphöllin Heimavellir Origo