Fasteignafélögin þrjú í Kauphöllinni, Reitir, Reginn og Eik, hækkuðu öll um tæp tvo prósent í viðskiptum dagsins. Reitir bar þar af í 2,3% hækkun í 464 milljóna króna viðskiptum.

Sjóvá hækkaði sömuleiðis um 2,2% og endaði daginn í genginu 34,55 krónum á hlut. Hlutabréfabréfaverð tryggingafélagsins hefur aldrei verið hærra en alls hefur gengi Sjóvá hækkað um 154% frá því í mars á síðasta ári.

Vátryggingafélag Íslands, VÍS, náði einnig methæðum eftir 1,6% hækkun í dag. Gengi félagsins hefur hækkað um 81,5% á einu ári og rúmlega 135% frá því í mars 2020. Fjármálaeftirlitið samþykkti í dag endurkaupáætlun VÍS á allt að 1,85 af útgefnu hlutafé félagsins.

Síldarvinnslan hækkaði fjórða daginn í röð og hefur gengi útvegsfyrirtækisins nú hækkað um 8% í vikunni. Síldarvinnslan hafði fram að þessari viku lækkað um 6,3% frá frumútboðinu í lok maí og hlutabréfaverðið var komið í 61,1 krónur á hlut á föstudaginn síðasta en stendur nú í 66 krónum.

Sjá einnig: Lífeyrissjóðirnir bæta við sig í SVN

Átta félög Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins. Sýn lækkaði um 1,5%, mest allra félaga, en fjarskiptafélagið hefur nú lækkað um 11% frá því byrjun júní síðastliðnum. Íslandsbanki lækkað næst mest eða um tæplega eitt prósent og stendur í 106,5 krónum á hlut, enn 35% yfir útboðsgenginu.