Tillögur stjórna tryggingafélaganna VÍS, Sjóvá og TM um milljarða arðgreiðslur hafa verið harðlega gagnrýndar á síðustu dögum meðal annars af Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR, en Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn í VÍS.

„Stærstu tryggingafélögin þrjú hyggjast greiða hluthöfum sínum arð á árinu 2016," skrifar Ólafía á vefsíðu VR. „Staðan er sú að arðgreiðslurnar byggja á breyttum reikningsskilaaðferðum sem skilað hafa félögunum auknu eigin fé. Fyrirtækin ætla hins vegar ekki að láta viðskiptavini sína njóta þessa óvænta ávinnings. Nei, hluthafarnir ganga fyrir. Tvö félaganna hafa auk þess hækkað iðgjöld, því tryggingareksturinn gengur ekki nógu vel. Ég verð að segja eins og er, okkur launafólki er misboðið."

Breytta reikningsskilaaðferðin, sem Ólafía vísar til, nefnist Solvency II og er ESB-tilskipun. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir að arðgreiðslumöguleikar tryggingafélaga fari eftir gjaldþoli þeirra, í samhengi við þá kröfu sem gerð er um gjaldþol.

„Þetta gjaldþol samanstendur af eigin fé og víkjandi fjármögnun," segir Stefán Broddi.  „Nýverið lauk VÍS til að mynda útgáfu víkjandi skuldabréfs upp á 2,5 milljarða króna, sem hækkaði gjaldþolið samsvarandi. Á móti myndu 5 milljarða króna arðgreiðslur leiða til samsvarandi lækkunar á gjaldþoli og nettó útstreymi fjármagns og neikvæð áhrif á gjaldþol upp á 2,5 milljarða, sem er lítið eitt hærri fjárhæð en hagnaður upp á 2,1 milljarða, sem félagið skilaði árið 2015.

Innleiðing Solvency II leiðir til þess að tekið hefur verið upp nýtt gjaldþolsviðmið, sem er í sjálfu sér stífara heldur en það sem áður var stuðst við. Þannig hækkar krafa um gjaldþol verulega en á móti verður mat á eignum og skuldum raunsærra, minna matskennt og tekur betur tillit til þekktrar áhættu. Þetta ætti að leiða til þess að uppgjör tryggingafélaganna verða gagnsærri og samanburður auðveldari."

Ofmat fært til bókar

Stefán Broddi segir nokkuð langt seilst að segja breytt reikningsskil leiði til hagnaðar sem síðan myndi svigrúm til arðgreiðslu.
„Fremur mætti segja að þessi tímapunktur verður þess valdandi að ofmat á tjónaskuld, sem lengi hefur verið til staðar, er fært til bókar. Það er ekki þar með sagt að félögin hefðu ekki getað verið búin að því áður en reikningsskilum var breytt. Líkt og mörg tryggingafélög í Evrópu móta íslensku félögin sér argreiðslustefnu sem tekur mið af löggjöf og áhættuvilja og sá áhættuvilji endurspeglast í gjaldþolshlutfalli. Eins og önnur fyrirtæki skilgreina tryggingafélögin hvernig þau vilja haga sinni fjármagnsskipan með það að markmiði að hámarka arðsemi með tilliti til áhættu.

Þegar fyrirtæki telja eignir umfram skuldir óþarflega miklar greiða þau hluta þeirra til eigenda nema eigendur kjósi að viðkomandi fyrirtæki snúi sér í auknum mæli að fjárfestingum. Í tilviki tryggingafélaganna eru fjárfestingareignir, sem samanstanda fyrst og fremst af verðbréfum, stærsta eignin, á meðan stærsta skuldin er vátryggingarskuldin, sem er áætlaðar skuldbindingar félagsins til viðskiptavina. Hjá VÍS voru fjárfestingareignir 33,6 milljarðar króna í lok árs en vátryggingaskuld 23,5 milljarðar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .