Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í 4,7 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Vátryggingafélögin leiddu hækkanir en Sjóvá hækkaði um 2% og VÍS um 1,4%. Sjóvá náði þar með sínu hæsta dagslokagengi frá skráningu í 37,25 krónum á hlut en VÍS er einungis 2% undir sínu metgengi sem félagið náði í síðasta mánuði. Sjóvá hefur nú hækkað um 5% frá birtingu árshlutareiknings fyrir viku síðan og VÍS um tæp 3% frá birtingu uppgjörs á fimmtudaginn.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 1,2% í 913 milljóna króna viðskiptum. Gengi Arion stendur nú í 167 krónum á hlut og hefur hækkað um 5% á einum mánuði. Íslandsbanki hækkaði einnig um 0,8% í dag og er komið aftur í hlutabréfagengið 120 krónur á hlut, 52% yfir útboðsgenginu í júní. Kvika banki lækkaði þó um 1,2%, mest allra félaga aðalmarkaðarins.

First North markaðurinn var rauður í dag. Flugfélagið Play lækkaði um 2,2%. Mesta veltan á þeim markaði var með hlutabréf fasteignafélagsins Kaldalón sem lækkaði um 1,1% í 188 milljóna króna viðskiptum. Högni Hjálmtýr Kristjánsson, forstöðumaður eignaumsýslu og fjármála, keypti hlutabréf í félaginu fyrir tæplega þrjá milljónir króna á genginu 1,81 í morgun.