Tryggingafélögin eru sigurvegarar dagsins í Kauphöllinni, en hlutabréfaverð þeirra allra hækkaði umtalsvert. Má gera ráð fyrir að hækkunin tengist bættu lánshæfismati TM hjá Standard & Poor's, en matsfyrirtækið hækkaði einnig lánshæfismat íslensku bankanna.

VÍS hækkaði mest, eða um 3,19 prósent, og var einnig mest velta með bréf félagsins. Nam hún rúmum 198 milljónum króna en heildarveltan á hlutabréfamarkaði var tæpar 813 milljónir króna. TM hækkaði um 2,88% og Sjóvá hækkaði um 2,39%. Þá hækkaði N1 um 1,28%, Össur um 1,01%, Marel um 0,92%, Fjarskipti um 0,77%, Reitir um 0,73%, Eik um 0,44%, Reginn um 0,32%, Hagar um 0,27% og Icelandair um 0,20%. Eina fyrirtækið sem lækkaði var HB Grandi, eða um 0,48%.

Veltan á skuldabréfamarkaði var talsverð í dag, eða 9,45 milljarðar króna. Aðalvísitala skuldabréfa stóð þó í stað á meðan úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 0,55%.

Markaðsvísitala GAMMA hækkaði um 0,6% í 10,1 milljarða króna viðskiptum í dag. Þar af hækkaði hlutabréfavísitalan um 0,7% í 0,6 milljarða króna viðskiptum og skuldabréfavísitalan um 0,4% í 9,3 milljarða króna viðskiptum.