Talsverður halli er af tryggingafræðilegri stöðu stærstu lífeyrissjóða landsins. Tryggingafræðileg staða er fundin út með því að reikna út heildarskuldbindingar umfram eignir. Eignirnar eru reiknaðar þannig út að tekin er hrein eign til greiðslu lífeyris eins og staðan er í dag og við hana er síðan bætt núvirði framtíðariðgjalda. Heildarskuldbindingar eru samtala áfallinna skuldbindinga og framtíðarskuldbindinga.

Í eftirfarandi upptalningu er aðeins tekin tryggingafræðileg staða miðað við heildarskuldbindingar, þess má geta að prósentutalan er hlutfall tryggingafræðilega hallans af heildarskuldbindingum. Þessi tala má samkvæmt lögum um lífeyrissjóði ekki vera hærri en 10% en í kjölfar bankahrunsins tók gildi sérstök undanþága sem heimilar þeim að að tryggingafræðilegur halli sé meira en 10% til skamms tíma. Aðeins tveir af stærstu sjóðum landsins eru þó yfir 10% hámarkinu, LSR (A-deild -12%) og Stapi (-11,7%), en bæði Lífeyrissjóður verkfræðinga (-8,7%) og Stafir (-8,1%) eru ekki fjarri því. Tryggingafræðileg staða annarra af þeim lífeyrissjóðum sem hér eru til umfjöllunar er sem hér segir: Lífeyrissjóður verzlunarmanna -3,4%, Lífeyrissjóður bankamanna -4,45%, Sameinaði lífeyrissjóðurinn -5,9%, Gildi lífeyrissjóður -8,1%, Almenni lífeyrissjóðurinn -5,9%.

Í þessu samhengi er vert að rifja það upp að ein helsta röksemd útrásarvíkinga fyrir því hversu vel íslenska hagkerfið stæði þegar útrásin stóð sem hæst var einmitt sú að lífeyrissjóðakerfi landsins væri að fullu fjármagnað, þ.e. að það ætti fyrir öllum sínum framtíðarskuldbindingum. Sömuleiðis má rifja upp þau ummæli Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, fyrr á árinu að lífeyriskerfið sé að breytast úr uppsöfnunarkerfi yfir í gegnumstreymiskerfi.

Vandinn verður enn meira áberandi þegar skoðuð er tryggingafræðileg staða vegna áfallinna skuldbindinga. Þær skuldbindingar dekkast eingöngu af hreinni eign nú og þegar eignir umfram skuldir eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós: Stapi -14,2%, Lífeyrissjóður verkfræðinga 19,2%, Almenni -12,2%, Sameinaði -9,6%, Lífeyrissjóður bankamanna -10,74%, Gildi -9,5%, Stafir  -16,7%, LSR A-hluti -2,5%, LSR B-hluti -62,5% og Lífeyrissjóður verzlunarmanna -2,5%. Taka ber fram að LSR nýtur, einn lífeyrissjóða, ríkisábyrgðar og því mun ríkissjóður leggja sjóðnum til fé svo hann geti staðið við skuldbindingar sínar.

Tryggingafræðileg staða sjóðanna segir til um getu þeirra til þess að standa við framtíðarskuldbindingar sínar og að öðru óbreyttu geta áðurnefndir sjóðir það ekki.