Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja var 11,16% í fyrra. Þrátt fyrir góða ávöxtun sjóðsins versnaði tryggingafræðileg staða hans. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára var 3,57% og síðustu 10 ára 5,86%. Ástæður aukins halla á tryggingafræðiegri stöðu sjóðsins úr 3,7% í 10,8% eru einkum tvennar; auknar lífslíkur þjóðarinnar samkvæmt reynslu áranna 1999-2003, en aðallega þó nýjar íslenskar örorkulíkur, sem gefa til kynna mun hærri örorku- tíðni þjóðarinnar en talin hefur verið hingað til.

Hrein eign beggja deilda sjóðsins til greiðslu lífeyris var 15.062 milljónir í árslok og hækkaði um 2.140 milljónir á árinu, eða um 16,6%.

Í árslok voru verðbréf með breytilegum tekjum 43,7% af fjárfestingum, eignir í erlendum gjaldmiðlum 24,4% og hlutfall óskráðra fjárfestinga 3,2%.

Innlend hlutabréf voru 19,4% af fjárfestingum, en erlend hlutabréf og verðbréfasjóðir 23,4%.

Iðgjaldatekjur samtryggingardeildar voru 483,3 milljónir. Alls greiddu 2.150 sjóðfélaga iðgjöld til deildarinnar á árinu. Lífeyrisgreiðslur voru 343,3 milljónir og hækkuðu um 9,4% frá fyrra ári. Lífeyrisþegar voru alls 863 og fjölgaði um 38 á árinu.

Hrein eign séreignadeildar var 93,3 milljónir í árslok og jókst um 59,1% á árinu. Rétthafar í deildinni voru tæplega 1.800 að tölu. Hrein raunávöxtun séreignadeildar var 10,56%; á Safni I var hún 9,40% og á Safni II var hún 10,98% . Skuldabréf séreignadeildar eru gerð upp á markaðsverði, en einnig er hlutfall erlendra mynta í fjárfestingum deildarinnar hærra en í samtryggingardeild, sem gerir eignir séreignadeildar næmari fyrir breytingum á gengisvísitölu krónunnar.

Ástæður aukins halla eru einkum tvennar; auknar lífslíkur þjóðarinnar samkvæmt reynslu áranna 1999-2003, en aðallega þó nýjar íslenskar örorkulíkur byggðar á reynslu 17 lífeyrissjóða árin 1998-2002, sem tryggingastærðfræðingar hófu að nota við útreikninga 2004 og gefa til kynna mun hærri örorkutíðni þjóðarinnar en talin hefur verið hingað til. Á árunum 1989-2004 hefur fjöldi örorkulífeyrisþega hjá sjóðnum meira en fjórfaldast, en á sama tíma hefur fjöldi ellilífeyrisþega aðeins tvöfaldast.

Hrein eign umfram áfallnar skuldbindingar nam 986 milljónum, eða 6,9%, en 2.676 milljónir vantaði uppá til að mæta heildarskuldbindingum, eða 10,8% á móti 3,7% árið áður. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði, nr. 129/1997, er þeim skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum til að koma á jafnvægi milli eigna og skuldbindinga, verði munur þar á milli meiri en 10%. Þess ber að geta að sjóðurinn hefur um árabil veitt sjóðfélögum sínum rýmri réttindi en aðrir almennir lífeyrissjóðir.

Byggt á frétt á vef Landssambands lífeyrissjóða, www.vb.is