Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands bíða eftir útpili ríkisstjórnarinnar svo hægt sé að klára nýja kjarasamninga á almennum markaði. Búist er við tillögum frá ríkisstjórninni í dag. Ef það gerist er hugsanlegt að samningarnir verði undirritaðir fyrir helgi. Ríflega 80 þúsund félagsmenn í ASÍ munu þá þurfa að kjósa um samninginn. Forsendur hans verða endurskoðaðar strax í febrúar.

Þann 29. maí í fyrra voru samningar á almennum vinnumarkaði, sem fólu í sér 18,5% launahækkun á þremur árum, undirritaðir. Nú um átta mánuðum síðar eru Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) með nýjan kjarasamning á borðinu. Þetta er samningur sem byggir á Salek-samkomulaginu, sem undirritað var í lok október.

Samningurinn, sem mun gilda til ársloka 2018, felur í grófum dráttum dráttum í sér 2,5% launahækkun í viðbót og hækkun lífeyrisiðgjalda um 3,5%. Samningurinn er klár en forsenda fyrir undirritun hans er að ríkisstjórnin komi með mótvægisaðgerðir sem feli í sér töluverða lækkun tryggingagjalds. Tryggingagjaldið lækkaði um 0,14% um áramótin og er í dag 7,35%. Árið 2008 var það 5,34% en hækkaði í þrepum á hrunárunum til að koma til móts við aukið atvinnuleysi. Tryggingjald er gjald sem atvinnurekendur greiða af heildarlaunum starfsmanna sinna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að líkleg niðurstaða sé að gjaldið verði nú lækkað um 1,5%.

„Það er í öllum megindráttum komin drög að nýjum kjarasamningi milli okkar og Alþýðusambandsins," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Ef stjórnvöld koma með ásættanlega tillögu varðandi tryggingagjaldið þá er okkur ekkert að vanbúnaði að ganga frá málinu í þessari viku."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .