*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 11. september 2018 08:54

Tryggingagjald lækki um 0,25 prósentustig

Gert ráð fyrir að að tryggingagjald lækki um 0,5 prósentustig á næstu tveimur árum.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Gert ráð fyrir að að tryggingagjald lækki í ársbyrjun 2019 um 0,25 prósentustig og aftur um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2020 samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2019. Í tilkynningu með frumvarpinu segir að aðgerðinni sé ætlað að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og því að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu. Tryggingagjald er einn stærsti tekjuliður ríkissjóðs og á að skila 101 milljarði króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þá er ráðgert að persónuafsláttur hækki um 1 prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2019. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neysluverðs, en tenging marka efra þrepsins við vísitölu launa skapar ákveðið misræmi þar sem persónuafslátturinn og þar með skattleysismörkin fylgja vísitölu neysluverðs. Stjórnvöld hyggjast nú festa mörk efra þrepsins við vísitölu verðlags sem stuðla eigi að jafnræði á milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu. Gert er ráð fyrir að skattgreiðslur lækki um 1,7 milljarða króna vegna breytinganna. Þá verða barnabætur hækkaðar um 1,6 milljarðar króna frá gildandi fjárlögum. Það felur í sér 16% hækkun milli áranna 2018 og 2019. 

Í fjárlögum er gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á barnabótum þar sem markmiðið er að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Vaxtabætur hækka um sem nemur 13% frá áætlaðri útkomu 2018.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is