Fyrir Alþingiskosningarnar 2013 var samstaða um það meðal allra stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi að lækka þyrfti tryggingagjaldið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SA.

Gjaldið lækkaði um 0,5% þann 1. júlí síðastliðinn, í 6,85%, en svigrúm er til enn frekari lækkunar og hvetja Samtök atvinnulífsins Alþingi til að lækka gjaldið nú þegar en það kemur harðast niður á minni fyrirtækjunum vegna hás launahlutfalls í rekstri þeirra.

Að mati Samtaka atvinnulífsins er svigrúm til að lækka tryggingagjaldið um 1,5% til viðbótar eða um 18 milljarða króna. Félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, lýsti því nýlega yfir að hún vilji ekki lækka tryggingagjaldið heldur nýta það til að lengja fæðingarorlof og jafnvel hækka lífeyrisgreiðslur.

Grundvallaratriði að flokkar standi við fyrirheit

Telur SA jafnframt að lækkun gjaldsins sé mikilvægur þáttur til að vega á móti miklum launahækkunum í kjarasamningum 2015-2018 og grundvallaratriði að stjórnmálaflokkarnir standi við fyrirheit sín um lækkun gjaldsins. Lækkun gjaldsins um 1,5%, í 5,35%, færði það í sama horf og það var fyrir hrun. Þrátt fyrir lækkun gjaldsins dygðu tekjur af því til þess að standa undir hækkun fæðingarorlofs í allt að 600 þúsund krónur á mánuði eins og félagsmálaráðherra hefur lagt til.