Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á skattadegi Deloitte og Viðskiptaráðs Íslands sem haldinn var á Grand Hótel í dag að hann vildi leita leiða til að flýta fyrir lækkun tryggingagjalds. Tryggingagjald var hækkað um 3,015% af launum til að mæta auknu atvinnuleysi vegna efnahagshruns árið 2008.

Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks ákvað að lækka tryggingagjaldið um 0,1% áramótin 2013-2014 og sama hlutfall seinustu áramót. Gjaldið verður að óbreyttu lækkað um 0,14% í byrjun árs 2016, eða samtals um 0,34% þegar fram líða stundir.

Atvinnurekendum hefur mörgum þótt þessi lækkun of lítil og gagnrýndi Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, ríkisstjórnina fyrir að hafa seilst í tryggingagjaldið til að fjármagna almenna útgjaldaaukningu ríkissjóðs í stað þess að lækka það til samræmis við lægra atvinnuleysi og bætt atvinnuástand.

Tryggingagjaldið eitt af stóru málunum

„Tryggingagjaldið vil ég þrátt fyrir þær breytingar sem við höfum gert halda áfram að skoða. Það var um 3% af vergri landsframleiðslu árið 2006 en 2013 var það komið í um 4%. Við munum leita leiða til að lækka tryggingagjaldið eftir því sem ástandið í ríkisbúskapnum býður upp á það. Það er eitt af stóru málunum fyrir atvinnulífið í landinu að halda því eins lágu og aðstæður bjóða upp á," sagði Bjarni í ræðu sinni á skattadeginum. Hann nefndi einnig að endurskoða þyrfti samsetningu tryggingagjalds.

Margt áunnist í skattamálum

Í máli Bjarna kom einnig fram að honum þætti margt hafa áunnist í skattamálum á seinasta ári. „Ég vil halda því til haga í umræðunni um tryggingagjald sem menn segja að sé of hátt að það hefur þó lækkað og við lögfestum strax 2013 brúttólækkun á tryggingagjaldinu."

Í tengslum við jákvæðar breytingar nefndi Bjarni einnig skattalega hvata í tengslum við notkun séreignasparnaðar við að greiða niður húsnæðislán, afnám almennra vörugjalda sem hann sagði „löngu tímabæra algerð.“ Hann nefndi einnig lækkun almenns fjársýsluskatts, löggjöf um stimpilgjald með sérstakri áherslu á að hægt yrði að endufjármagna húsnæðislán án þess að það yrði stimpilskylt, breytingar á neyslusköttum og lögum um milliverðlagningu.

Bankaskattur dekki aðrar skattalækkanir

„Það er þannig að með öllum þessum breytingum höfum við gefið eftir um það bil 25 milljarða af skattekjum. Á móti vega síðan þessar umfangsmiklu breytingar á bankaskattinum og sérstaka fjársýsluskattinum sem leiða til þess að ríkissjóður kemur þrátt fyrir allt út með auknar tekjur. Lang mest áhrif hafa þar breytingarnar sem við gerðum á skattalegri meðferð slitabúanna," sagði Bjarni.

Jaðarskattar eru yfir 50 prósent

Fjármálaráðherra sagði að áfram yrði unnið að því að einfalda skattkerfi, til dæmis með því að fækka undanþágum neysluskatta. Eitt af forgangsverkefnunum væri líka að endurskoða samspil þriggja þrepa skattkerfis og tekjutengdra bóta af ýmsu tagi, þar sem jaðarskattar væru í sumum tilfellum meira en 50 prósent.

„Það er ekki einfalt að fara í grundvallarbreytingar á þriggja þrepa tekjuskattskerfi, en það er það sem að vilji minn stendur til þess að gera, að draga úr þessu flækjustigi. Það er óþarflega mikið flækjustig í mínum huga sem að við erum með, sérstaklega þegar við förum að horfa á tekjuskattskerfið samhliða bótakerfunum sem við höfum innleitt og öllum tekjutengingunum sem þar eru. Allir þessir bótaflokkar með tekjutengingum geta leitt til jaðarskatta sem eru yfir 50 prósent." Slíkt skatthlutfall þætti honum vera of hátt.

Endurskoðun verði lokið á kjörtímabilinu

„Þetta er það sem að ég vil taka til sérstakrar skoðanar með það að markmiði að hvatarnir sem ég nefndi í upphafi séu ávallt réttir og það séu ekki letjandi hvatar í kerfinu til þess að leggja meira á sig til þess að bæta kjör sín. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að breytingar í þessa veru geti litið dagsins ljós sem allra fyrst. Þetta er eitt af þeim forgangsverkefnum sem við höfum í ráðuneytinu hjá mér á þessu ári," sagði fjármálaráðherra.