Framlag stjórnvalda til að kjarasamningar haldi mun, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, verða lækkun á tryggingagjaldi upp á 1,5 prósentustig. Jafngildir það 20,4% hlutfallslegri lækkun tryggingagjalds. Kemur þetta fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Lækkun skiptir töluverðu máli fyrir fyrirtæki, enda er tryggingagjald greitt af heildarlaunum starfsmanna. Heildarlaun árið 2014 voru að meðaltali 555.000 krónur á mánuði. Fyrir fyrirtæki með tíu manns í vinnu nemur lækkunin á tryggingagjaldinu rétt tæpri milljón króna á ári. Heildarlaunakostnaður fyrirtækisins á ári nemur 66,6 milljónum króna og greitt tryggingagjald lækkar úr 4,9 milljónum króna í 3,9 milljónir, eða um 20,4%.

Einföld stærðfræði segir þá að lækkunin nemur um tveimur milljónum króna á ári fyrir fyrirtæki sem er með 20 manns í vinnu og tæpum fimm milljónum króna fyrir fyrirtæki með 50 manns í vinnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .