Ríkið ætti að lækka atvinnutryggingagjaldið til þess að liðka fyrir komandi kjarasamningum. Þetta segir Stefán Einar Stefánsson, fyrrverandi formaður VR, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Stefán Einar bendir á að í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 hafi tryggingagjald verið hækkað til muna vegna aukins atvinnuleysis. Nú séu aftur á móti rök fyrir því að lækka það aftur.

Hann segir að ef ríkisstjórnin ákveði að lækka skatta, ætti hún að skilyrða þá lækkun með ákveðnum hætti. „Ef ríkið lækkar tryggingagjaldið á sú lækkun að ganga beint til þess að mæta auknum launakostnaði vegna nýrra samninga. Þá verður hægt að líta á lækkunina sem framlag til þess að samningsaðilar nái saman,“ segir Stefán Einar.

Á sama tíma muni þessi aðferð koma í veg fyrir verðbólguþrýsting vegna nýrra kjarasamninga því lækkun gjaldsins og hækkun launa sem því nemur muni aðeins fela í sér fluning kostnaðar í rekstri fyrirtækjanna. Ein tegund launakostnaðar breytist í annan. „Hins vegar mun fyrrnefnd aðgerð að öllum líkindum leiða til aukins hagvaxtar sem gefur fyrirtækjum í kjölfarið svigrúm til frekari umsvifa,“ segir Stefán Einar.