Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að tryggingafélög standi frammi fyrir ýmsum áskorunum um þessar mundir. Fólk og fyrirtæki eru farin draga saman seglin vegna efnahagssamdráttarins og því eru minni iðgjöld í boði.

„Við höfum sérstaklega orðið vör við það upp á síðkastið að fólk er að endurskoða tryggingarnar sínar. Þetta er dálítið varhugaverð þróun á tímum þegar allir ættu að vera vel tryggðir.“ Hann hefur áhyggjur af þróun vátryggingasvika sem virðast vera að færast í aukana og bendir á að samkvæmt nýlegri könnun þekkja margir aðila sem hafa stundað vátryggingasvik.

Einnig hefur athyglisverð þróun átt sér stað í ökutækjatryggingum. „Við sjáum að slysum á fólki í umferðinni, þ.e. líkamstjónum, hefur fjölgað á sama tíma og umferðin er að dragast saman og árekstrum fækkar.“

Fjárhagslega sterkari

Sigurður bendir á að íslensk skaðatryggingafélög hafi aldrei skilað raunverulegum hagnaði af vátryggingarekstri sem komi m.a. fram í því að fyrirtækin hafi ávallt keyrt á samsettu hlutfalli sem hafi verið yfir 100%. „Við sjáum þó ýmis batamerki á síðasta ári. Tjónahlutfallið og samsetta hlutfallið hefur verið að lækka.“ Almennt séð er staða tryggingafélaganna góð að hans mati, eins og sést best á eiginfjárstyrk þeirra. Í fyrsta skipti í langan tíma uppfylla öll tryggingafélögin kröfur FME um lágmarksgjaldþol.