Tryggingamiðstöðin hlýtur samþykki norskra fjármálayfirvalda til að eignast norska tryggingafélagið NEMI forsikring ASA, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þann 4. ágúst 2006 móttók TM samþykki frá Fjármálaeftirliti Noregs (FMEN/Kredittilsynet) þar sem TM er heimilað að eiga milli 74,5 og 100% af útistandandi hlutum í NEMI.

Samþykkið er háð því skilyrði að TM kaupi að minnsta kosti 74,5% hlutafjár í NEMI innan 3 mánaða frá dagsetningu samþykkis FMEN.

Jafnframt eru sett skilyrði fyrir því að leita þarf samþykkis FMEN fyrir ráðstöfun umtalsverðra eigna eða hluta starfsemi NEMI til þriðja aðila og að möguleg viðskipti milli NEMI og TM fari fram eins og um óskilda aðila sé að ræða.

Þetta þýðir að skilyrði í tilboðinu um jákvæða umfjöllun norskra fjármálayfirvalda hefur verið rutt úr vegi. Eina óuppfyllta skilyrði tilboðsins er að NEMI standist áreiðanleikakönnun og er áætlað að henni ljúki ekki síðar en 25. ágúst 2006.

?Við erum mjög ánægðir með samþykki norskra fjármálayfirvalda og þetta þýðir að við munum halda ótrauðir áfram með kaupin á NEMI, segir Óskar Magnússon forstjóri TM"

Um NEMI

NEMI forsikring ASA, félag á Norrænum tryggingamarkaði, er alhliða skaðatryggingafélag sem býður margvíslega tryggingarþjónustu og einbeitir sér að afmörkuðum hlutum markaðarins. Má þar nefna skipatryggingar, tryggingar á vatnsaflsvirkjunum, tryggingar fyrir verslun og þjónustu, fiskeldistryggingar, farmtryggingar og flugvélatryggingar.