*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 9. febrúar 2006 14:17

Tryggingamiðstöðin hagnaðist um 7,2 milljarða króna árið 2005

Ritstjórn

Tryggingamiðstöðin hagnaðist um 7,2 milljarða króna árið 2005 og er það mesti hagnaður í sögu félagsins, segir í uppgjöri fyrirtækisins. Hagnaðurinn var 2,5 milljarðar í fyrra.

Heildareignir Tryggingamiðstöðvarinnar aukast úr 23 milljörðum þann 1. janúar 2005 í 30,8 milljarða þann 31. desember 2005 eða um 33%.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 1,8 milljarði en var 608 milljónir á sama tíma í fyrra.

Betri afkoma skýrist fyrst og fremst af afar góðri ávöxtun fjárfestinga félagsins, segir Óskar Magnússon, forstjóri fyrirtækisins.

Rekstrartap af vátryggingastarfsemi árið 2005 nam 481 milljónum króna. Helsta ástæða þess er aukinn tjónaþungi á ökutækjum og slysum á sjómönnum sem jukust sérstaklega á síðasta ársfjórðungi, segir í uppgjörinu.

Fjárfestingatekjur námu 7,7 milljörðum króna árið 2005 en námu 3,6 milljörðum króna árið áður.

Fjárfestingatekjur námu 2,1 milljarði króna á fjórða ársfjórðungi 2005 en voru alls 1,3 milljarðar á sama tíma 2004.

Eftir árvissan samdrátt hækka bókfærð iðgjöld um 2,2% frá árinu 2004 og námu 6 milljörðum árið 2005. Eigin iðgjöld félagsins lækka hins vegar á sama tíma um 1,5% og námu 4,9 milljörðum króna árið 2005

Bókfærður tjónakostnaður félagsins nam 5.697 milljónum króna og jókst um 12,4% frá árinu áður. Eigin tjónakostnaður hækkar um 5% frá árinu á undan og nam 4,8 milljörðum árið 2005.

Rekstrarkostnaður nam 1,7 milljörðum og hækkar um rúm 17,3% frá árinu áður.