Þeir fjölmörgu viðskiptavinir sem Tryggingamiðstöðin hefur þegar gert upp við, vegna Suðurlandsskjálftans, munu sjálfkrafa fá leiðréttingu í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka lágmark eigin áhættu í tjónum sem Viðlagatrygging Íslands bætir úr 85.000 kr. í 20.000 kr.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Tryggingamiðstöðvarinnar.

Félagið hefur þegar hafið vinnu við að undirbúa þessar viðbótargreiðslur.

„Við höfum þegar hafið vinnu við leiðréttingu á greiðslum til þeirra viðskiptavina okkar sem við höfðum gert upp lausafjártjón við. Við eigum von á að sú vinna geti gengið mjög hratt og að greiðsla berist á allra næstu dögum.“ segir Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM.