Tap Tryggingamiðstöðvarinnar nemur 130 milljónum á öðrum ársfjórðungi. Á fyrsta ársfjórðungi tapaði tryggingafélagið 3,3 milljörðum króna.

Mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í afkomu fyrirtækisins. Á öðrum ársfjórðungi 2007 hagnaðist félagið um 1,5 milljarð.

Ef litið er til fyrstu sex mánaða ársins þá nemur tapið 3,4 milljörðum samanborið við 2,4 milljarða króna hagnað fyrstu sex mánuðina í fyrra.

Tap af vátryggingastarfsemi tæpar 100 milljónir

Vátryggingastarfsemin skýrir að mestum hluta tapið á þessum ársfjórðungi, en tap vegna hennar nemur 99 milljónum króna.

Líkt og hjá flestum félögum nú, voru fjárfestingatekjur félagsins neikvæðar sem nemur 756 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins.

Heilareignir tryggingafélagsins námu 78,8 milljörðum í lok júní og hafa aukist um 12% frá áramótum.

Þá var eiginfjárhlutfallið 30,3% í lok júní þessa árs.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að megin verkefni sé að bæta afkomu af vátryggingastarfsemi. Þá segir að afkoma félagsins af fjárfestingarstarfsemi skýrist að mestu af slæmri afkomu á fyrsta fjórðungi ársins, en þá lækkaði hlutabréfaeign fyrirtækisins mikið.

Einnig segir í tilkynningu að fjárhagsleg staða félagsins sé traust.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Fjárhagsleg staða félagsins er ákaflega traust og geta þess til að standa við skuldbindingar sínar er langt umfram það sem opinberir aðilar og matsfyrirtæki gera kröfur um.“