Starfsemi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) einkenndist af einstaklega erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2008. Tap vegna norska dótturfélagsins NEMI Forsikring ASA (Nemi), sem nú hefur verið selt, nam 12,1 milljarði króna og tap vegna innlendrar starfsemi TM nam 5,5 milljörðum króna. Heildartap ársins nam því 17,6 milljörðum króna.  Eftir söluna á Nemi er eiginfjárhlutfall TM 31,2%.

Í frétt félagsins kemur fram að hagnaður vegna innlendrar vátryggingastarfsemi TM á árinu 2008 nam 166 milljónum króna. Eigin iðgjöld ársins voru tæpir 9 milljarðar kr. og jukust um tæp 20% á milli ára. Eigin tjónakostnaður jókst um 32% á milli ára og nam um 9,4 milljörðum kr.

Tjónakostnaður í eigin hlut var 393 m.kr. hærri en iðgjöld félagsins og var eigið tjónshlutfall félagsins 104,4%. Mikil verðbólga samfara auknum kostnaði vegna ökutækja- og eignatjóna skýra að stærstum hluta óviðunandi afkomu af vátryggingarekstri á Íslandi. Viðsnúningur varð hins vegar í afkomu af slysatryggingum sjómanna frá fyrra ári.