Skuldatryggingarálag (CDS) á fimm ára spænsk ríkisskuldabréf hækkaði um 27 punkta í gær og jafngildir nú 622 punkta. Hefur það aldrei verið hærra.  Endurspeglar þróunin auknar áhyggjur fólks að þetta fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins muni lenda í vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Þetta kemur fram í Financial Times í dag.

Þróun skuldatryggingarálags er ein vísbending um traust sem fjárfestar bera til skuldara. Þeir geta tryggt sig fyrir greiðslufalli og aukist líkurnar hækkar tryggingin. Samkvæmt FT er árlegur kostnaður við að tryggja 10 milljón dollara skuld til fimm ára um 622 þúsund dollara miðað við að álagið sé 622 punktar.