Fukoku Mutual Life Insurance sagði nýlega upp 34 starfsmönnum. Í stað þeirra kemur ofurtölva sem á að sinna tryggingarstærðfræðinni. BBC News hefur meðal annars fjallað um málið, sem hefur vakið mikla athygli um allan heim.

Líklegt er að uppsögnum sem þessum muni fjölga á næstu árum, enda eru tölvur farnar að leysa menn af á ótrúlegustu sviðum.

Fyrirtækið spáir því að framleiðni muni aukast um allt að 30% og að félagið muni spara sér um 140 milljónum Jena á ári í launakostnað. Upphæðin jafngildir um 1,2 milljónum dala eða 135 milljónum króna.

Kerfinu sjálfu verður komið á síðar í þessum mánuði en það kostaði um 200 milljónir Jena. Fjárfestingin ætti því að borga sig á tæplega tveimur árum, en viðhaldskostnaður mun nema um 15 milljónum Jena á ári.

Samkvæmt nýlegri úttekt World Economic Forum mun gervigreinda á borð við þá sem Fukoku Mutual ætlar að nota, tortíma um 5,1 milljónir starfa á næstu fimm árum í samtals 15 löndum. Þessi 15 lönd ráða yfir um 65% vinnuafls heimsins.