Tryggingagjald lækkaði um 0,5 prósentustig þann 1. júlí, líkt og samkomulag Samtaka atvinnulífsins við stjórnvöld kvað á um. Fór það úr 7,35% í 6,85% við lækkunina.

Lækkar áfram næstu árin

Var kjarasamningur samtakanna frá 21. janúar við ASÍ og aðildarfélög þess byggður á þeirri forsendu að gjaldið yrði lækkað.

Felur samkomulagið í sér lækkun gjaldsins um 0,5 prósentustig um mitt ár 2016 og svo sama hlutfall 2017 og 2018 þannig að gjaldið yrði komið í svipað horf við lok þess eins og það var fyrir bankahrun. Forsendur þess eru þó að skuldir ríkisins lækki.

Telja samtökin lækkun tryggingagjalds nauðsynlega forsendu þess að geta mætt kröfum um meiri launahækkanir og jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins án þess að raska efnahagslegum stöðguleika.