Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans rannsakar nú hvort tryggingafélagið Allianz hafi brotið gegn lögum um gjaldeyrishöft í kjölfar erindis sem Landssamtök lífeyrissjóða sendu bankanum. Í erindinu er spurt hvort Allianz auk Sparnaðar/Bayern og ef til vill fleiri hafi fengið heimild til þess að stofna til nýrra samninga um sparnað í erlendum gjaldeyri í formi söfnunartrygginga.

Fjallað er um málið á vef Landssamtakanna undir fyrirsögninni „Er maðkur í mysunni?“ og er þar m.a. fullyrt að Allianz á Íslandi og Sparnaður/ Bayern hafi haldið áfram að bjóða samninga um sparnað í formi söfnunarlíftryggingar sem og viðbótarlífeyrissparnað þó svo slíkt sé óheimilt með öllu síðan gjaldeyrishöft tóku gildi í lok nóvember 2008.

Veitir ekki upplýsingar

Fram kemur í umfjöllun Landssamtaka lífeyrissjóða að málið sé nú til rannsóknar hjá Seðlabankanum. Viðskiptablaðið leitaði staðfestingar á þessu hjá Seðlabankanum og fékk eftirfarandi svar: „Samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál ber Seðlabanka Íslands að hafa eftirlit með lögum og reglum um gjaldeyrismál. Samkvæmt 14. gr. laganna er skylt að veita bankanum allar þær upplýsingar sem hann kann að óska eftir til að geta sinnt nauðsynlegu eftirliti. Seðlabankinn getur ekki veitt upplýsingar varðandi viðfang eftirlits á hverjum tíma vegna þessa lögboðna eftirlitshlutverks.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.