Í nýja Icesave-samkomulaginu er að finna skilyrði sem gæti veitt Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) aukinn forgang umfram aðra kröfuhafa í þrotabú Landsbankans. TIF er með forgangskröfu fyrir rúmu 51% af endurheimtum í þrotabú
bankans. Þetta kemur fram í umsögn IFS-greiningar sem unnin var fyrir fjárlaganefnd Alþingis.

Segir að líklegt sé að TIF muni sækjast eftir þessum aukna forgangi. „Ef það gengi eftir þá fengi TIF greitt út úr þrotabúinu á undan öðrum. Það gæti jafnvel leitt til þess að endanleg niðurstaða yrði sú að TIF fengi meira greitt úr þrotabúinu en hann þyrfti að greiða Bretum og Hollendingum miðað við núverandi gengi krónunnar,“ segir í umsögninni.