Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt um að allar innstæður í Silicon Valley Bank sem féll á föstudaginn verði tryggðar að fullu af tryggingasjóði innstæðueiganda.

Sama eigi við um Signature Bank í New York sem tekinn var yfir af eftirlitsaðilum í dag, en hann sérhæfði sig í viðskiptum tengdum rafmyntum.

Hluthafar og ákveðnir skuldabréfaeigendur tengdir SVB fái hins vegar ekki fyrirgreiðslu og tapi því væntanlega því sem þau hafa lagt fram en þá hafi stjórnendum bankans verið skipt út.

Auk þess verður opnað á lánalínur frá Bandaríska Seðlabankanum til bandarískra banka til að styrkja lausafjárstöðu þeirra.

Bandarískir skattgreiðendur muni ekki greiða fyrir viðbótarinnstæðutryggingar umfram lögbundið lágmark upp að 250 þúsund dollurum. Verði eignir bankans við sölu þeirra lægri en innstæður bankans verði mismunurinn fjármagnaður með gjaldi á banka, líkt og lög kveði á um.

Með þessu vonast stjórnvöld til að koma í veg fyrir áhlaup á aðra banka á morgun og hinda vandræði sem fyrirtæki sem áttu innstæður í SVB hefðu lent í kæmust þau ekki í innstæður sínar á morgun.