Spænski knattspyrnurisinn FC Barcelona hefur selt 24,5% hlut í Barca Studios, félagi sem sér um allt myndefni tengt félaginu, til Orpheus Media á 100 milljónir evra. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times. Barca hafði áður selt jafn stóran hlut í félaginu til rafmyntafyrirtækisins Socios.com fyrir sömu upphæð og hefur þar af leiðandi selt 49% hlut í Barca Studios fyrir 200 milljónir evra.

Félagið er í kappi við tímann um að ná að skrá nýju leikmennina sína fyrir fyrsta deildarleik á morgun gegn Rayo Vallecano. Félagið hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum á undanförnum árum og hlaðið upp skuldum til skamms og langs tíma. Þá hefur félagið aflað hundruði milljóna evra í sumar í gegnum eignasölur, sem Joan Laporta, forseti félagsins, hefur kallað „economic levers“.

Fjármagnið hefur farið í afborgun skulda, en ekki síst í kaup á hverri stórstjörnunni á fætur annarri, en Barcelona hefur varið 160 milljónum evra í leikmannakaup í sumar, mest allra liða í heimi. Fjármagnið er einnig mikilvægt félaginu þegar kemur að launaþaksreglum La Liga. Deildin setur öllum félögum ákveðnar skorður um launakostnað sem eru háðar tekjum þeirra síðastliðin fimm tímabil.

Misheppnuð bókhaldsbrögð

Barcelona hafði selt 25% hlut í sjónvarpsréttindum sínum til næstu 25 ára til fjárfestingafélagsins Sixth Street á 667 milljónir evra. Síðar kom í ljós að einungis 517 milljónir evra komu beint frá Sixth Street, en 150 milljónir fóru úr einum vasa Barcelona í annan.

Spænska deildin tók ekki þessum 150 milljónum gildum, en nú virðist félagið hafa fundið þennan pening meðal annars með sölunni á Barca Studios. Auk þess hefur Gerard Pique, leikmaður liðsins, samþykkt að gefa eftir laun sín á næsta tímabili. Sú ráðstöfun mun spara félaginu 52 milljónir evra á bókhaldsárinu, að því er kemur fram í grein The Athletic. Samkvæmt íþróttamiðlinum er félagið vongott að geta skráð meirihluta nýju leikmannanna.

Þá segir í grein The Athletic að þeir Lewandowski, Raphinha, Andreas Christensen og Franck Kessie verði skráðir í tæka tíð fyrir leik morgundagsins. Þó sé möguleiki á því að Jules Kounde verði ekki skráður í tæka tíð. Til þess að geta skráð hann muni félagið þurfa að selja leikmenn og lækka laun einhverra leikmanna, en talið er að þónokkrir leikmenn eigi eftir að yfirgefa liðið áður en leikmannaglugginn lokar þann 1. september.