Nýsköpunarfyrirtækið OverTune hefur tryggt sér 200 milljón króna sprotafjármögnun sem fjárfestingafélagið Brunnur leiðir, en þetta kemur fram í tilkynningu. Brunnur hefur undanfarið lagt kraft sinn í að fjárfesta í íslenskri nýsköpun og stuðla að vaxandi markaði og bætist OverTune nú í hópinnn.

OverTune er smáforrit sem gerir fólki kleift að skapa tónlist fyrir samfélagsmiðla á einfaldan máta, án þess að notandinn þurfi að hafa bakgrunn í tónlist. Hingað til hafa forrit á borð við TikTok og Instagram ekki boðið upp á þennan valkost. Aðstandendur Brunns Ventures sjá mikla möguleika í fyrirtækinu og veðja á velgengni þess, enda eru samfélagsmiðlar stór hluti af lífi fólks í nútíma samfélagi og kemur OverTune inn á markaðinn með nýja nálgun, að því er kemur fram í tilkynningu.

Bæði erlendir og innlendir fjárfestar koma að fjármögnun OverTune, sem hófst í miðjum heimsfaraldrinum. Því fór hluti fjármögnunar fram í gegnum Zoom, sem verður að teljast nokkuð áhugavert. Dæmi um aðra fjárfesta í OverTune eru til að mynda Charles Huang, fyrrum stofnandi og framkvæmdastjóri tölvuleiksins Guitar Hero. Beta útgáfa OverTune verður aðgengileg í febrúar næstkomandi.

Stofnefndur OverTune eru þrír talsins: Sigurður Ásgeir Árnason, Pétur Eggerz Pétursson og Jason Daði Guðjónsson, en stjórnarformaður fyrirtækisins er Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins OZ.

Sigurður Ásgeir Árnason er fyrrum yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Larsen Energy Branding og forsprakki hljómsveitarinnar Ultra Mega Technobandsins Stefáns sem náði þó nokkurri velgengni bæði hérlendis. Pétur Eggerz Pétursson, vörustjóri, er fyrrum tæknistjóri HN Markaðssamskipta og framkvæmdastjóri Motive. Jason Daði Guðjónsson, hönnunarstjóri, er fyrrum forstöðumaður Hip Hop Hátíðarinnar.

Sigurður Ásgeir Árnason, framkvæmdastjóri OverTune og einn þriggja stofnenda:

„Brunnur Ventures hafa fjárfest í áberandi frambærilegum fyrirtækjum á seinustu misserum og er það því ánægjulegt að þeir leiði þessa seinni fjármögnunar umferð okkar. Reynsla þeirra á sviði afþreyingar og vaxtafyrirtækja mun nýtast OverTune gífurlega vel þar sem fyrirtækið hefur vaxið á eftirtektarverðan hátt frá öðrum ársfjórðungi seinasta árs."

Sigurður Arnljótsson, einn stofnenda Brunns Ventures og fjárfestingastjóri:

„Við erum stolt að því að leiða fjármögnunar umferð OverTune. Við teljum að fyrirtækið muni umbylta skapandi efnissköpunarmarkaði og erum spennt fyrir næstu skrefum."