Hópur íslenskra fjárfesta hefur tryggt sér 83% hlut í breska knattspyrnufélaginu West Ham United, segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Kauptilboð hópsins, sem leiddur er af Eggerti Magnússyni og Björgólfi Guðmundssyni, nemur 421 pensi á hlut, sem samsvarar um 85 milljónum punda, eða rúmlega 11 milljörðum króna.

Eggert mun taka við sem stjórnarformaður West Ham og Björgólfur Guðmundsson verður heiðursforseti félagsins. Þór Kristjánsson, Guðmundur J. Oddsson og Sighvatur Bjarnason munu taka sæti í stjórn West Ham.

Framkvæmdastjórarnir Paul Aldridge, Nick Igoe og Scott Duxbury munu áfram stýra félaginu.

Á rekstrarárinu, sem lauk þann 31. maí síðastliðinn, numu tekjur West Ham 60 milljónum punda, samanborið við 31,8 milljónir punda árið áður. Tekjur af sjónvarpsútsendingum skýra tekjuaukninguna, en félagið komst aftur í ensku úrvalsdeildina á árinu.

Rekstrarhagnaður var 13,4 milljónir punda á tímabilinu, samanborið við rekstrartap að virði 1,9 milljónir punda árið áður. Hagnaður fyrir skatta nam sex milljónum punda, samanborið við rúmlega fimm milljón punda tap árið áður.