Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Keeps hefur lokið sinni fyrstu fjármögnun frá norræna fjárfestingarfélaginu Nordic Ignite. Jafnframt er þetta fyrsta fjárfesting Nordic Ignite, sem einblínir á nýsköpunarfélög á fyrstu stigum (e. pre-seed).

Keeps var stofnað árið 2021 af Guðrúnu H. Ragnarsdóttur og Nínu L. Auðardóttur. Nýsköpunarfyrirtækið var meðal þátttakenda í Startup SuperNova hraðlinum á síðasta ári.

Keeps þróar hugbúnaðarlausn sem gerir ferðaþjónustuaðilum kleift að halda utan um allar myndir og texta á einum stað og deila því þaðan á helstu sölusíður og samfélagsmiðla. Lausnir Keeps snúa að einföldun ferla sem eru í senn tímasparandi og söluaukandi.

Fjármagnið verður nýtt til að þróa fyrstu útgáfu lausnar Keeps, ásamt því að taka fyrstu skrefin á markaði.

„Við erum í skýjunum með að fá Nordic Ignite í lið með okkar. Félagið er virkur fjárfestir með mikla þekkingu og alþjóðlegt tengslanet sem við höfum nú þegar notið góðs af. Við erum spenntar fyrir samstarfinu og að hanna lausn sem á sér engan líkan í ferðamannaiðnaðinum,“ segir Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Keeps.

Nordic Ignite er nýtt englafjárfestingarfélag sem stefnir á íslenska First North-markaðinn á næstu 2-3 árum. Fjárfestingarfélagið vill brúa fjármögnunarbilið sem nýsköpunarfélög standa frammi fyrir frá hugmynd að vísifjármögnun.

Auk fjármögnunar hyggst Nordic Ignite aðstoða sprotafyrirtækjunum í eignasafni sínu með ráðgjöf frá hópi 30 englaráðgjafa, sem hafa sérþekkingu hver á sínu sviði.

„Við höfum mikla trú á Guðrúnu og Nínu, kraftmiklum frumkvöðlum með ástríðu, þekkingu og drifkraft sem hefur hrifið okkur frá fyrsta fundi. Við erum spennt að vinna með þeim að þróun á lausn sem á erindi á alþjóðamarkað,“ segir Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Nordic Ignite.