Fjártæknifyrirtækið Five Degrees hefur tryggt sér 22 milljóna evra fjármögnun – andvirði 3.425 milljóna króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Félagið sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki og er alls með 160 manns í vinnu, þar af eru 50 starfsmenn á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu.

Greint er frá því að fjármögnunin muni koma til með að styrkja félagið í að koma á fót skýjalausn bakvinnslukerfa fyrir bankastarfsemi, auk þess að styðja við sölu- og markaðsstarf ársins 2021. „Kerfið er byggt á samsettum einingum og nýtir skýjaþjónustur sem og annan nútíma hugbúnaðararkitektúr. Five Degrees á nú þegar í viðræðum við nokkra aðila sem fyrstu kaupendur lausnarinnar,“ segir í tilkynningu.

Five Degrees þjónustar banka og lánveitendur í Hollandi, Íslandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Á meðal viðskiptavina má nefna ABN AMRO, Toronto Dominion Bank, Landsbankann, Arion banka og Íslandsbanka.

Fjármögnunarferlið var leitt af Velocity Capital FinTech Ventures og naut stuðnings fjárfestahóps þess. Karmijn Kapitaal, 5Square og aðrir núverandi fjárfestar tóku einnig þátt í fjármögnuninni, sem er sú stærsta í sögu Five Degrees.

Björn Hólmþórsson, einn af stofnendum og forstjóri Five Degrees á Íslandi, segir: „Ég er virkilega ánægður með þennan áfanga í fjármögnun okkar. Þetta er viðurkenning á því góða starfi sem okkar fólk hefur unnið að samfleytt undanfarin 2 ár við þróun nýrrar skýjalausnar. Skýjalausnin nýtir þá miklu reynslu sem teymin okkar á Íslandi, í Hollandi og Portúgal hafa af þróun bankakerfa. Við munum kynna lausnina fyrir viðskiptavinum okkar á Íslandi á næstu árum. Five Degrees er staðráðið í að halda áfram að aðstoða fjármálafyrirtæki við að ná góðum árangri með háþróaðri skýjatækni.“