Isavia hefur tryggt sér 6,3 milljarða króna lán, 40 milljónir evra, frá Evrópska fjárfestingabankanum. Um er að ræða lokaádrátt 100 milljón evra lánalínu sem veitt var árið 2018 í tengslum við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Upphæðin kemur til viðbótar við fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu í Isavia sem ráðist var í skömmu eftir að ferðamannalindir heimsins þornuðu upp. Alls hefur félagið því tryggt sér ríflega tíu milljarða króna frá því að ferðalög stöðvuðust vegna veirufaraldursins.

„Það er ánægjulegt að sjá Evrópska fjárfestingabankann koma með þessum hætti að fjármögnun áframhaldandi uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli á þessum óvissutímum. Þessi ákvörðun bankans sýnir vilja hans í verki til að koma með myndarlegum hætti að verkefnum sem styðja beint við endurreisn hagkerfisins,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í tilkynningunni.

„Það er okkur verulega mikilvægt að hafa náð þessu samkomulagi við bankann, sérstaklega í ljósi afar þröngrar stöðu í okkar umhverfi. Við höfum síðustu vikur og mánuði leitað allra leiða til að tryggja aðgang að fjármagni með það að markmiði að styðja við umsvif Isavia þar til sjóðsstreymi félagsins verður jákvætt á ný. Óvissan er engu að síður enn þá veruleg en þessi ákvörðun bankans gerir okkur kleift að halda verkefnum okkar gangandi enn um sinn og veitir okkur þannig mikilvægt svigrúm til áframhaldandi umsvifa,“ segir forstjóri Isavia, Sveinbjörn Indriðason.