Það voru mikil viðbrigði að hefja störf í alþjóðlegu fjármálaumhverfi, segir Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka, en hann starfaði hjá breska fjárfestingabankanum Barclays Capital í London í sjö ár.

„Í upphafi starfaði ég á fjárfestingabankasviði og vinnuharkan var mikil enda vissum við að starfsmönnum yrði fækkað. Vinnudagurinn byrjaði kl. 7 sem þýddi að ég lagði af stað að heiman kl. 6 og kom svo seint heim á kvöldin. Konan mín hafði það að venju að spyrja mig á kvöldin hvað ég hefði borðað um daginn og það var of oft sem það kom í ljós að ég hafði ekki gefið mér tíma til að borða hádegismat,“ segir Tryggvi Björn í viðtali við Fréttablaðið þar sem hann segir frá tíma sínum erlendis.

Tryggvi starfaði erlendis fyrir og eftir bankahrun og segir andrúmsloftið hafa verið spennuþrungið fram að hruni. „Ég fann ákaflega til með vinum og vandamönnum heima og fjarlægðin var erfið. Á leið minni til og frá vinnu sá ég fyrrum starfsfólk Lehman, vikum saman, bera eigur sínar út úr byggingunni, mótmæla í bræðiskasti eða bara stara út í loftið í ráðleysi. Það var sláandi sjón.“