Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur óskað eftir lausn frá embætti sínu frá og með 1. maí næstkomandi. Hann sendi forsætisnefnd þingsins erindi þess efnis 18. febrúar síðastliðinn. Þetta kom fram í tilkynningu Steingríms J. Sigfússonar, forseta þingsins, við upphaf þingfundar í dag.

Umboðsmaður Alþingis er eitt þriggja embætta sem Alþingi kýs en hin tvö eru ríkisendurskoðandi og skrifstofustjóri þingsins. Forsætisnefnd barst erindi Tryggva fyrir viku síðan og hefur fallist á beiðni hans um lausn frá embætti. Tryggvi hefur verið umboðsmaður Alþingis frá 1. nóvember 1998, fyrst í rúmt ár sem settur umboðsmaður en frá 1. janúar 2000 sem kjörinn umboðsmaður.

„Lögum samkvæmt ber forsætisnefnd að gera tillögu um einstakling fyrir kjör á umboðsmanni og hefur nefndin hafið vinnu við það ferli. Þriggja manna nefnd hefur hafið þann undirbúning og mun sú undirnefnd skipa nefnd þriggja sérfræðinga sem verða nefndinni til ráðgjafar fyrir fyrirhugaða kosningu,“ sagði Steingrímur. Í máli hans kom enn fremur fram að þau sem hafa áhuga á að gegna embættinu eða hafi hug á að tilnefna einhvern til þess geti sent nefndinni erindi.

Sem stendur er Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, settur í embætti umboðsmanns til 1. apríl. Frá því að embættinu var komið á fót hafa aðeins tveir gegnt því sem kjörnir umboðsmenn, það er fyrrnefndur Tryggvi og þar áður Gaukur Jörundsson.