Í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4, verður rætt við Tryggva Jónsson, forstjóra Heklu. Uppgjör félagsins hefur verið kynnt, en framlegð af rekstri Heklu jókst um ríflega 300 milljónir milli ára. Nýir fjárfestar hafa gengið til liðs við félagið og í dag tók Hekla formlega yfir KIA umboðið á Íslandi.

Það er mikið rætt um niðurrif og ekki síður uppbyggingu við Laugaveg og nærliggjandi götur, einn þeirra sem sér mikla möguleika á svæðinu er Ágúst Friðgeirsson verktaki og eigandi ÁF-húsa. Ágúst hefur hefur keypt lóðir við Laugaveg og Vatnsstíg og hyggst byggja á þeim verslunar- og íbúðahúsnæði. Rætt verður við Ágúst um uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur og stöðuna á bygginga- og fasteignamarkaði.

Í næstu viku verður Íslenski markaðsdagurinn haldinn hátíðlegur. Atli Freyr Sveinsson, stjórnarmaður í ÍMARK, ætlar að segja frá því helsta sem þar verður borið á borð en meðal fyrirlesara er forstjóri gosdrykkjafyrirtækisins Jones soda. Forstjórinn hefur farið nýjar leiðir í markaðssetningu á Jones Soda, meðal annars notað andlit viðskiptavina sinna til að merkja flöskurnar í stað snoppufríðra fyrirsæta og poppstjarna og hefur þar með sparað sér skildinginn.

Undir lok þáttarins verður fjallað um það sem stangveiðifélagið Lax-á hefur að bjóða veiðimönnum sem eru farnir að skjálfa af eftirvæntingu fyrir komandi tímabil. Laxveiðitímabilið er hafið í Skotlandi og sjóbirtingsveiðar standa nú sem hæst í Argentínu, Ásta Ólafsdóttir lítur í heimsókn og með henni verður Stefán Sigurðsson sölustjóri Lax-ár á Íslandi.