Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um að innleidd verði formleg fjármálaregla við stjórn ríkisfjármála hér á landi.

Tilgangurinn með tillögunni er að koma ríkisfjármálum í fastari skorður, að fjármálastefnan styðji betur við peningamálastefnuna, að skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum á Íslandi til frambúðar, að skapa skilyrði til minni hagsveiflna, minni óvissu og aukins hagvaxtar og að skapa skilyrði til þess að krónan geti þjónað sem lögeyrir á Ísland, að því er fram kemur í þingskjalinu sem dreift var með tillögunni.

Þá á fyrrnefnd fjármálaregla að fela í sér að ríkisútgjöld vaxi ekki meira á ári en sem nemur meðalhagvexti á mann næstliðin 10 ár. Eingöngu verður heimilt að víkja frá þessari reglu í undantekningartilfellum og þá með minnst 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi.

„Þróun gengis krónunnar undanfarin ár hefur verið með þeim hætti að margir hafa snúist á þá skoðun að eina færa leiðin í gjaldmiðlamálum Íslendinga sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er röng niðurstaða,“ sagði Tryggvi Þór í ræðu á Alþingi í gær þegar tillagan var lögð fyrir.

„Nær sömu skilyrði þurfa að ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar til að evran henti sem þjóðargjaldmiðill og þurfa að vera fyrir hendi til að krónan geti gegnt því hlutverki. Til að evran gagnist Íslendingum sem gjaldmiðill þarf hagstjórnin að vera með þeim hætti að hún sé trúverðug og skapi stöðugleika. Annars gæti farið fyrir Íslandi eins og Grikklandi og Írlandi.“

Sjá tillöguna í heild sinni