Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, segist ekki vera á launum hjá Askar Capital meðan hann sinnir starfi sínu hjá forsætisráðuneytinu. Þá hafi hann selt hlutabréf sín í fyrirtækinu. Hann kveðst aðspurður ekki telja hættu á hagsmunaárekstrum. „Það var farið mjög vel yfir þetta og þetta á allt að vera pottþétt,“ segir hann.

„Ég hef stjórnað fjármálafyrirtæki í þó nokkurn tíma og þar er þessi línudans sem eru kínaveggir, innherjaupplýsingar og annað slíkt. Eitt af því að vera hæfur til að stjórna svona fyrirtæki er að geta farið með svoleiðis upplýsingar,“ segir hann.

Tryggvi Þór tekur formlega til starfa 1. ágúst næstkomandi og verður því í leyfi frá Askar Capital næsta hálfa árið. „Ég mun aðstoða forsætisráðherra og móta tillögur í efnahagsmálum,“ segir hann. „Það mun ég gera með því að hitta aðila úr m.a. fjármálakerfinu og frá vinnumarkaði. Ég mun sía út hugmyndir og móta tillögur og síðan væntanlega gerir hann [forsætisráðherra] þær að sínum tillögum og setur þær í framkvæmd.“

Tryggvi Þór segir aðspurður að laun hans hjá forsætisráðuneytinu miðist við laun aðstoðarmanns ráðherra.

Bregðast þarf fljótt við

Inntur eftir því hvenær vænta megi tillagna segir hann að það liggi ekki fyrir. „En það er ljóst að það þarf að bregðast fljótt við. Það kæmi mér ekki á óvart ef það yrði fljótlega. Það er þó þegar heilmikið í gangi og ég mun fylgja því eftir.“

Tryggvi Þór segir aðspurður að ástandið í efnahagsmálum sé mjög erfitt í heiminum og þar með á Íslandi. „Ég held að þessi ráðning beri vott um að forsætisráðherra taki það alvarlega og vilji fá alla þá hjálp sem hægt er að fá í þessum málum.“