Lífskjör hér á landi verða að öllum líkindum færð aftur til ársins 2003, þ.e. sex ár aftur í tímann vegna þess hruns sem var í efnahagslífinu í s.l. haust.

Þetta sagði Tryggvi Þór Herbertsson, prófessor á hádegisverðafundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) um stöðu þjóðarbúsins sem nú stendur yfir.

Tryggvi Þór sagði að nokkur breyting hefði orðið á tekjudreifingu síðustu árin. Þannig hefði myndast bóla á efstu launum sem nú væri sprungin. Þá sagði Tryggvi Þór að þeir sem hæstar höfðu tekjurnar á síðustu árum myndu finna hvað mest fyrir samdrættinum en þeir sem minni höfðu tekjurnar á sama tímabili myndu ekki finna jafn mikið fyrir hruninu.

Hins vegar þyrftu stjórnvöld að koma með raunhæfar tillögur til að koma í veg fyrir frekari lífskjaraskerðingu.

Tryggvi Þór lagði áherslu á það að eignir yrðu reiknaðar á móti skuldum. Hann nefndi sem dæmi að tryggingar vegna erlendar innistæða, t.d. vegna Icesave væru um 4.724 milljónir Bandaríkjadala. Hins vegar væru eignir á móti skuldunum sem næmu 4.157 milljónir dala samkvæmt upplýsingum frá Skilanefnd Landsbankans. Þessar eignir myndu koma á móti skuldunum og því rétt að taka þær með í reikninginn.

Annað dæmi sem Tryggvi Þór nefndi er að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði um 2.100 milljónir dala. Það fjármagn yrði hins vegar nýtt sem gjaldeyrisvaraforði og allt lagt inn á reikning hjá Seðlabankanum í New York og bæri þar vexti. Því væri hægt að reikna það sem eigná móti skuld.