„Ég óttast það því miður að staða efnahagsmála geti versnað skarplega á næstunni ef hjólin fara ekki að snúast,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir stjórnvöld hafa fengið að heyra þau sjónarmið fyrir meira en hálfu ári, m.a. frá sér, að það væri lífsnauðsynlegt að taka ákvarðanir um stórframkvæmdir og fleira til þess að efla atvinnulíf.

„Atvinnuleysi hefur verið að aukast hratt að undanförnu. Ég er ekki viss um að það sé tilviljun að það skuli gerast samhliða ákvörðunum um skattahækkanir. Það á að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla atvinnustig og reyna að sporna gegn auknu atvinnuleysi og frekari búferlaflutningum frá landinu. Annars er voðinn vís,“ segir Tryggvi Þór.