Tryggvi Þór Herbertsson, sem lét af störfum sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar fyrir skömmu, segir að hann hyggst ekki snúa aftur til starfa hjá íslensku fjármálafyrirtæki á næstunni.

Til þess búi hann yfir of miklu af upplýsingum vegna starfs síns sem efnahagsráðgjafi.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins en Tryggvi var gestur í þættinum Okkar á milli á Rás 1 í morgun.

Þá segir Tryggvi að hugsanlega hefði hann ekki tekið að sér starf efnahagsráðgjafa forsætisráðherra ef hann hefði vitað að það hefði breyst eftir að bankarnir voru yfirteknir.

Í útvarpinu í morgun sagði Tryggvi að starfið hafi upphaflega átt að snúast um að ráða stjórnvöldum heilt um aðgerðir í efnahagsmálum. Þegar Glitnir fór breyttist starfið þannig að hann var mikið í verkunum sjálfum.

Tryggvi vill hins vegar ekki tjá sig um ástæður þess að hann hætti störfum.