Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur snúið út úr neikvæðum upplýsingum Hagstofunnar á fyrri helmingi þessa árs með því að segja að allt bendi til þess að hagtölur á þriðja og fjórða ársfjórðungi verði mun hagstæðari – víst væri landið að rísa. Við þeirri staðhæfingu er ekkert annað að gera en bíða og sjá.

Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Tryggvi Þór segir tölur Hagstofunnar endurspegla þá hjöðnun sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi. Þá segir Tryggvi Þór að á öðrum ársfjórðungi hafi 22.500 störf tapast á 24 mánuðum.

„Gjaldeyrishöftin eru eitt mesta efnahagsböl sem þjóðin þarf að búa við. Áríðandi er að þessum höftum sé aflétt hið fyrsta til að eðlileg viðskipti geti komist á að nýju,“ segir Tryggvi Þór í grein sinni.

„Eitt af þrem atriðum sem Seðlabankinn tilgreinir sem forsendur þess að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftum er að væntingar um framvindu efnahagslífsins styðji við gjaldmiðilinn, m.ö.o. að fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, hafi trú á íslensku efnahagslífi. Sú trú leiðir síðan til þess að hvatinn til að flýja með fjármuni úr landi við afnám gjaldeyrishafta er lágmarkaður og þar með veikist gengi krónunnar ekki jafn mikið og ella við afnámið.“

Þá segir Tryggvi Þór að það sé bagalegt og seinki afnámi gjaldeyrishaftanna að forystumenn ríkistjórnarinnar skuli ekki koma fram á trúverðugri hátt en raun ber vitni.

„Trúverðugleiki og væntingar um að „landið sé að rísa“ verða ekki byggðar með orðum einum,“ segir Tryggvi Þór.

„Það er ekki hægt að blekkja þjóðina til jákvæðra væntinga. Það verður að koma fram af heiðarleika og raunsæi. Stjórnmálamenn verða að sýna forystu og leiða þjóðina.“

Loks segir Tryggvi Þór að stjórnarflokkarnir geri sér grein fyrir því að hér á landi sé allt við frostmark. En þá sé því kennt um að Icesavedeilan sé ekki leyst.

„En í þeirri orðræðu gleymist eitt: lausn Icesave er á ábyrgð stjórnvalda,“ segir Tryggvi Þór.

„Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar geta ekki kennt neinu öðru um en eigin getuleysi að ekki sé búið að leysa málið. Það voru þessi stjórnvöld sem slógu tóninn með ruglsamningnum sem Svavar kom með heim sem endaði í samningi sem þjóðin hafnaði. Stjórnvöld geta því ekki kennt neinu um nema vanmætti sínum gagnvart verkefninu.“

Hægt er að lesa grein Tryggva Þórs í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.