Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, segir að hver þjóð hafa öðru fremur reynt að verja sitt fjármálakerfi í kjölfar falls Lehman Brothers, 15. september 2008. Mikil þörf hafi þá verið fyrir alþjóðlegt samstarf seðlabanka, til að koma veg fyrir allsherjarhrun millibankamarkaðar. Tryggvi segir að mikill munur hafi verið á því hvernig seðlabankar í einstökum löndum hafi brugðist við aðstæðum.

Sp. blm .:Var samstarf á milli seðlabanka lítið á þessum tíma, þegar fjármálamarkaðir voru að falla saman?

„Seðlabankar áttu samstarf. Við vorum t.d. með viðbúnaðarsamkomulag við norræna seðlabanka og við erum núna þátttakendur í viðbúnaðarsamkomulagi ESB og sérstöku samkomulagi fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. En þegar á hólminn var komið þá reyndist samkomulag við aðra seðlabanka ekki nægilega traustur grunnur fyrir samvinnu.

Í þessu samhengi má taka dæmi af bankalandinu Sviss. Það stóð berskjaldað í þessum hremmingum með mjög stórt bankakerfi. En vegna þess hvað bankar þar í landi voru stórir og mikilvægir þá gat seðlabankinn í Sviss gert samkomulag um gagnkvæm gjaldmiðlaskipti og fleira, sem gerði það að verkum að landið stóð þetta af sér.

Íslensku bankarnir voru hins vegar ekki álitnir kerfislega mikilvægir á mörkuðum, sem gerði þeim endanlega ómögulegt að lifa af. Vegna þess hvernig markaðir þróuðust á árinu 2008 þá tel ég, eftir á að hyggja, að það hafi verið ómögulegt fyrir bankana að lifa af. Það er hægt að nefna annað í þessu samhengi, sem sýnir að hvert land hugsaði eðlilega mest um sig sjálft.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .