„Þetta er alrangt,“ segir þingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson um 300 milljóna króna kúlulán sem hann er sagður hafa fengið þegar hann var forstjóri fjárfestingarbankans Askar Capital til skamms tíma árið 2006. DV fjallar um málið í dag og segir hann hafa gert það nýverið upp.

Tryggvi segir þvert á það sem DV heldur fram málið snúa með þessum hætti:

„Árið 2006 báðu Milestone-menn mig um að koma á fund með sér. Þeir sögðu: Við erum að stofna fjárfestingarbanka og höfum áhuga á því að þú stýrir honum. Ég spurði m.a. hvaða kjör væru í boði. Þeir sögðust í fyrsta lagi ætla að borga laun, en ekki ofurlaun í samanburði við hina bankana. Þá sögðu að ég myndi eignast kauprétt í Askar Capital. Þeir sögðu: Við stofnum félag, setjum hlutabréf inn í það upp á 300 milljónir. Við munum útvega lán inn í félagið og ganga frá því. Á næstu þremur árum eignast þú félagið – eignir og skuldir. Þegar þú ert búinn að vinna í þrjú ár þá eignast þú félagið, hlutabréfin og skuldirnar. Planið er að þegar þessi þrjú ár eru liðin þá geturðu selt hlutabréfin, borgað skuldirnar og vexti og vonandi hagnast af því.“

Setti síðasta punktinn aftan við Askar-tímann í fyrra

Tryggvi segir í samtali við vb.is þetta hafa virst sanngjarnt.

„Þarna voru tengdir saman hagsmunir og ég ekki að taka á mig neina ábyrgð nema að standa mig í starfi. Síðan sumarið 2008, einu og hálfu ári eftir að þetta var gert, fer ég frá Askar til að gerast ráðgjafi Geirs H. Haarde. Þá var gengið frá félaginu þar sem kauprétturinn , sem var til þriggja ára, var ekki myndaður. Ég vildi heldur ekki vera tengdur inn í neitt félag og réttindi þar vegna stöðu minnar sem efnahagsráðgjafi. Eftir það veit ég ekki neitt um þetta félag nema að ég skuldaði því pening sem ég fékk að láni í upphafi sem ég gekk frá í fyrra,“ segir Tryggvi og leggur áherslu á að hann hafi gengið frá öllu sínu í júlí 2008. Eftir það hafi félagið ekki verð á neinn hátt á hans ábyrgð.

Tryggvi segir jafnframt:

„Ég hef margoft útskýrt þetta opinberlega. Það er furðulegt að málið skuli alltaf poppa upp aftur og aftur á viðkvæmum tímum fyrir mig sem stjórnmálamann. Ég gerði grein fyrir málinu opinberlega áður en ég bauð mig fram vorið 2009 og var kosinn til Alþingis í kjölfarið. Nú, tæpum fjórum áður síðar, ratar málið enn og aftur á forsíður í kjölfar þess að ég sækist eftir oddvitasætinu í NA-kjördæmi. Merkilegt, ekki satt? “

Varnaglinn

Félagið sem um ræðir og hélt utan um kauprétt Tryggva þegar hann starfaði hjá Askar Capital heitir Varnagli. Tryggvi var skráður 100% eigandi að því í lok árs 2007 samkvæmt ársreikningi. Það hafði jafnframt heimilisfesti hjá Tryggva þar til 9. ágúst á þessu ári. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær hefur félagið verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í lok árs 2007 var eigið fé Varnagla neikvætt um rúmlega 70 milljónir króna og skuldaði það um 300 milljónir.

Í lok árs 2010 var eigið fé Varnagla neikvætt um rúmlega 800 milljónir. Á þeim tíma var það komið í eigu Eignarhaldsfélagsins Hrímbakur ehf., sem var í eigu félaga Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra Milestone. Þangað var félagið selt frá Rákungi ehf., sem keypti félagið af Tryggva Þór árið 2008.