Hópur fjárfesta undir forystu Margrétar Ásgeirsdóttur og Arnars Gunnlaugssonar, fyrrum knattspyrnumanns, hafa keypt allt hlutafé í veitingastaðnum Bazaar ásamt hótelinu Oddsson, sem hvoru tveggja eru rekin í JL-húsinu.

Seljandi að tæplega helmingshlut í veitingastaðnum var fjárfestirinn og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Tryggi Þór Herbertsson. Viðskiptafélagar hans, Guðjón Þór og Svavar Þór Guðmundssynir seldu sig einnig út úr félaginu.

Staðurinn opnaði í sumar

Veitingastaðurinn var opnaður í byrjun síðasta sumars, en Tryggvi Þór segist í samtali við Fréttablaðið aldrei hafa verið annað en fjárfestir í staðnum.

Salan átti sér stað í október síðastliðnum, en Tryggvi átti ásamt bræðrunum 80% hlut í félaginu á móti Margréti og hennar hópi sem keypti sig inn í félagið í byrjun árs 2016.

Margrét á helminginn í JL-húsinu

Margrét Ásgeirsdóttir á helmingshlut í fyrirtækinu JL Holding sem á JL- húsið í gegnum félagið 59 ehf, en hinn helmingurinn er í eigu Loftsson Holding ehf. sem er í eigu Lárusar Sighvatar Lárussonar og Stefán Arnalds.

Þegar viðskiptin gengu í gegn tók Arnar Gunnlaugsson við stjórnarformennsku í JL Veitingum af Tryggva Þór, en hann og Margrét eru einu stjórnarmennirnir í félaginu.

Ásgeir Kolbeinsson mögulegur stjórnarmaður

Jafnframt virðist sem að til greina hafi komið að veitinga- og sjónvarpsmaðurinn Ásgeir Kolbeinsson myndi setjast í stjórn félagsins því að nafn hans er í tilkynningu um breytingu á stjórnskipan félagsins til Ríkisskattstjóra, en hins vegar er búið að strika yfir nafn hans.