Tilraunir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, til að fá Íslendinga til að kalla Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til hjálpar vorið 2008 má hugsanlega skoða í því ljósi að hann væri að gera tilraunir til að minnka áhættu Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanka Evrópu vegna mikilla lána til íslensku bankanna fremur en að um sérstaka góðvild hafi verið að ræða.

Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í gær þar sem hann m.a. rekur viðskipti Seðlabanka Íslands með hin svokölluðu ástarbréf í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.

Tryggvi Þór segir að í byrjun árs 2008 hafi íslensku bankarnir fjármagnað sig í miklum mæli í Seðlabanka Evrópu við litla hrifningu Jean-Claude Trichet. Seðlabankinn í Lúxemborg hafi sérstaklega verið notaður í þessum viðskiptum. Í maí 2008 hafi fjármögnun Seðlabanka Evrópu orðið hærri að krónutölu en Seðlabanka Íslands og hélst það þannig allt þar til bankarnir féllu að sögn Tryggva Þórs.

„Bréfin sem notuð voru í viðskiptunum voru bæði það sem kallað er varin bréf sem byggðu m.a. á húsnæðisbréfum, ríkisbréfum og skuldum fyrirtækja sem og ótryggð bréf. Bar þar mikið á ástarbréfunum svokölluðu,“ segir Tryggvi Þór.

„Að stofni til er hægt að segja að verðbréfasöfn þau sem Evrópski Seðlabankinn tók við í endurhverfum viðskiptum við íslensku bankana hafi verið af sama meiði og bréfin sem Seðlabanki Íslands tók við í viðskiptum sínum nema að þau voru skráð í evrum, a.m.k. að nafninu til. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að Seðlabanki Íslands hafi fylgt öðrum reglum en aðrir seðlabankar í viðskiptum sínum við íslensku bankana.“

Tryggvi Þór segir að ástarbréfin svokölluðu hafi fengið það viðurnefni vegna samvinnu bankanna við að fjármagna sig í endurhverfum viðskiptum í bönkum og seðlabönkum. Innanlands hafi litlu bankarnir oftar enn ekki notaðir sem milliliðir í þessum viðskiptum og þá sérstaklega Icebank.

„Viðskiptin fóru þannig fram að einhver bankanna þriggja gaf út skuldabréfaflokk sem uppfyllti skilyrði sem veðandlag í endurhverfum viðskiptum við SÍ. Skilyrðin voru m.a. að það væri viðskiptavakt með bréfin í Kauphöllinni og að bréfin næðu tiltekinn lágmarkseinkunn hvað varðar lánshæfismat hjá Standard & Poor‘s, Moody‘s eða Fitch,“ segir Tryggvi Þór.

„Einhver hinna bankanna keypti bréf af bankanum sem gaf þau út. Sá fór með bréfin í Seðlabankann og notaði þau sem veðandlag í endurhverfum viðskiptum og fékk í staðinn krónur sem hann síðan notaði til að borga útgefandanum fyrir bréfin. Viðskiptamódelið var að bréfin báru hærri vexi en lán Seðlabankans og hirti miðlarinn vaxtamuninn. Viðskiptin við Seðlabanka Evrópu og erlenda viðskiptabanka gengu í megin atriðum eins fyrir sig.“

Seðlabankinn
Seðlabankinn
© BIG (VB MYND/BIG)


Seðlabankinn flæktur í neti sem hann gat ekki losað sig úr

Þá segir Tryggvi Þór að vorið 2008 hafi verið reynt að vinda ofan af þessum viðskiptum, bæði í Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Send hafi verið tilmæli til fjármálastofnana um hvernig bankabréfin myndu innan skamms einungis geta staðið fyrir 50% lána í endurhverfum viðskiptum í stað 95% áður. Viðbrögð fjármálafyrirtækjanna hafi hins vegar verið á einn veg. Þau hafi sagt að þessi ráðstöfun myndi ógna mjög stöðugleika kerfisins sem var mjög viðkvæmt um þessar mundir.

„Að minnka krónur í kerfinu með því að minnka útlán í endurhverfum viðskiptum hefði verið dauðadómur, sérstaklega yfir litlu bönkunum,“ segir Tryggvi Þór.

„Seðlabankinn hvarf því frá þessari fyrirætlan sinn í bili – bankinn var flæktur í neti sem hann gat ekki losað sig úr. Sama gilti um Seðlabanka Evrópu sem stöðugt hótaði bönkunum en gat síðan ekki staðið við stóru orðin þar sem bankinn gat með engu móti verið ábyrgur fyrir því að bankakerfið íslenska færi á hliðina fremur en Seðlabanki Íslands. Þegar mest var nam áhætta Seðlabanka Lúxemborgar á íslensku bankanna um 25% af heildarútlánum bankans.“

Tap Seðlabankans minna en áður var talið, en allt í íslenskri mynt

Þá segir Tryggvi Þór að við fall bankanna hafi lán sem veitt höfðu verið gegn veði í ótryggðum bréfum bankanna numið um 345 milljörðum króna.

„Ríkissjóður keypti þessi bréf af Seðlabankanum á 270 milljarða með 5 ára verðtryggðu skuldabréfi. Seðlabankinn afskrifaði því 75 milljarða beint vegna veðlánanna. Upphæðin sem ríkið keypti var síðan afskrifuð í ríkisreikningi um 180 milljarða,“ segir Tryggvi Þór.

„Um 90 milljarðar sem þá stóðu eftir voru síðan seldir til Eignasafns Seðlabanka Íslands. Eignasafnið inniheldur nú allar kröfur á föllnu bankana. Óvænt hliðarverkun af þessum snúningi er að lausafjárstaða ríkisjóðs batnaði um 90 milljarða króna.“

Tryggvi Þór telur að Eignasafn Seðlabankans muni a.m.k. fá til baka þá 90 milljarða sem keyptir voru af ríkissjóði. Varfærið mat gæti því verið að um 100-150 milljarðar af 345 milljörðunum sem Seðlabankinn lánaði ótryggt muni endurheimtast. Tap Seðlabankans og ríkissjóðs af bankahruninu vegna lána Seðlabankans gæti því legið á bilinu 195 til 245 milljarðar sem nemur 13-16% af landsframleiðslu að mati Tryggva Þórs.

„Hitt er annað mál og ekki úr vegi að spyrja: af hverju ríkissjóður keypti ótryggðu skuldirnar af Seðlabankanum afskrifaði þær og seldi aftur til Eignasýslu Seðlabanka Íslands? Hvað er að því að seðlabanki sé með neikvætt eigið fé í þeirri mynt sem hann sýslar með? Auðvitað þarf seðlabanki að eiga gjaldeyrisvarasjóð en það skiptir engu máli hvort eign í krónum er jákvæð eða neikvæð – seðlabanki hefur peningaprentunarvaldið,“ segir Tryggvi Þór.

Sjá grein Tryggva Þórs í heild sinni.