Tryggvi Tryggvason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjárstýringar hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka og tekur hann til starfa þann 1. júní næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Saga Capital.

Þar kemur fram að Tryggvi býr að 14 ára starfsreynslu úr fjármála- og bankageiranum en síðustu 10 árin hefur hann starfað hjá Landsbanka Íslands. Frá því í desember síðastliðnum starfaði hann sem framkvæmdastjóri Landsvaka, rekstrarfélags verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsbankans en þar áður var hann m.a. aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðasviðs bankans og framkvæmdastjóri Landsbankans í Lúxemborg.

Þá starfaði Tryggvi áður sem framkvæmdastjóri Kaupþings Norðurlands og sem sjóðsstjóri hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka.

Tryggvi er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með mastersgráðu í fjármálum frá Háskólanum í Strathclyde í Glasgow. Hann er jafnframt með próf í verðbréfaviðskiptum.