Nú standa yfir umræður í gríska þinginu um umbótatillögur og samkomulag sem Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, gerði við alþjóðlega lánardrottna síðasta mánudag. Hefur Tsipras hvatt þingmenn til þess að samþykkja tillögur lánardrottna, þrátt fyrir að hann telji þær „órökréttar“. BBC News greinir frá þessu.

Tsipras segist ekki hafa trú á samkomulaginu, en kveðst hins vegar viljugur til þess að innleiða tillögurnar í því skyni að verjast falli grísku bankanna og neyðarástandi í landinu. Tillögurnar fela meðal annars í sér aukna skattlagningu og hækkun eftirlaunaaldurs.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnrýndi samkomulagið harðlega og segir skuldastöðu Grikklands í augnablikinu afar ósjálfbæra. Aðeins sé hægt að bæta úr stöðunni með því að ráðast í skuldaniðurfellingu sem gangi mun lengra en núverandi samkomulag felur í sér.

Gríska þingið þarf að samþykkja tillögurnar fyrir lok dagsins.