Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur hótað því að segja af sér embætti kjósi Grikkir með tillögum alþjóðlegra lánardrottna í þjóðaratkvæðagreiðslunni næsta sunnudag. BBC News greinir frá þessu.

Tsipras heldur því fram að verði tillögurnar felldar í atkvæðagreiðslunni muni samningsstaða Grikklands styrkjast til muna. Hvetur hann því landsmenn til þess að greiða atkvæði gegn þeim, en verði það ekki niðurstaðan muni hann ekki sitja áfram í embætti til þess að halda niðurskurðaraðgerðum áfram.

Grikkland á að standa skil á afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir kl. 18 í dag að bandarískum tíma, en hins vegar er orðið ljóst að ekki verður af greiðslunni.

Leiðtogar innan Evrópusambandsins hafa sagt að kjósi Grikkir gegn tillögum lánardrottna muni landið þurfa að yfirgefa evrusamstarfið. Sú niðurstaða er Tsipras ekki að skapi, en í sjónvarpsávarpi í gær sagðist hann ekki trúa því að lánardrottnar vildu Grikki úr samstarfinu þar sem kostnaðurinn yrði gífurlegur.